Soffía frænka
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, sem er oddviti Borgarinnar okkar, er stundum kölluð „Soffía frænka“, eins og sú sem sagði ræningjunum í Kardimommubænum að taka til. Við viljum taka til í rekstri borgarinnar. Vissirðu að Reykjavíkurborg skuldar eitthundrað milljarða? Það er næstum því ein milljón á hvern íbúa. Peningana sem við spörum viljum við nota til að borga skuldirnar, því annars er hætt við því að skattarnir sem þú greiðir verði ennþá hærri í framtíðinni.
Snjallsímabann
Við viljum líka taka til í menntamálum. Sú skoðun er útbreidd að snjallsímanotkun trufli kennslu og einbeitingu nemenda. Á kjörtímabilinu hafa skólastjórnendu, kennarar og foreldrar kallað eftir því að skólayfirvöld eigi frumkvæði að því að setja reglur um notkun snjallsíma í skólastofum. Því miður hafa skólayfirvöld látið hjá líða að taka frumkvæðið í þessum efnum. Við viljum taka frumkvæðið.
Raunhæfar lausnir í samgöngumálum
Á kjörtímabilinu hefur umferð um helstu samgönguæðar borgarinnar vaxið ár frá ári. Núverandi meiri hluti hyggst leysa samgönguvandann með forgangsakreinum fyrir strætisvagna (Borgarlínu). Áætlaður kostnaður er a.m.k. 70 milljarðar króna. Sérfræðingar sem hafa kynnt sér hugmyndina telja hins vegar að kostnaðurinn geti hæglega orðið 150 milljarðar króna. Ákvörðunin gæti því sett skuldaklafa á útsvarsgreiðendur um ókomin ár. Við teljum að fjárfesting í Borgarlínu sé allt of áhættusöm. Við viljum leita raunhæfra leiða til að létta á umferðarþunganum. Við höfum lagt til að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að samtali við fjölmenna vinnustaði í því skyni að dreifa umferðarálagi. Sem dæmi er lagt til að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að samtali við Landspítala um hvort breyta megi vaktafyrirkomulagi á Landspítalanum en þar starfa nú u.þ.b. sex þúsund starfsmenn. Með því að færa upphaf og lok dagvakta af mesta háannatímunum mætti stytta ferðatíma heilbrigðisstarfsfólks og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Það væri a.m.k. raunhæft skref í rétta átt, en ekki loforð sem aldrei verður staðið við.
Ódýrara húsnæði fyrir ungt fólk
Það hefur aldrei verið dýrara fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð í Reykjavík. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú stefna núverandi meiri hluta í borgarstjórn að úthluta fáum nýjum lóðum undir fjölbýlishús. Við viljum stórauka lóðaframboð í Reykjavík, t.d. í Úlfarsárdal og byggja upp nýy hverfi í Geldinganesi. Stefna núverandi meiri felur í sér þéttingu byggðar þar sem lóðaverð er mjög hátt. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur t.d. lagt áherslu á að byggt verði í Vatnsmýrinni. Afleiðingar þessarar stefnu eru skortur á íbúðarhúsnæði og hærra húsnæðisverð. Þær íbúðir sem eru nú boðnar til sölu í Vatnsmýrinni eru aðeins fyrir hátekjufólk. Tveggja herbergja íbúðir eru boðnar til sölu á um og yfir 40 m. kr. Ef þú vilt ódýrari íbúð þá er aukið lóðaframboð eina lausnin. X-O fyrir Borgina okkar – Reykjavík.