//
Helstu upplýsingar

logo1
Listabókstafur: P
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Píratar leggja áherslu á lýðræði og pólitíska ábyrgð. Við viljum að allir geti komið að ákvarðanatöku sem þá varða með valdeflingu almennings og við viljum auka traust allra á stjórnmálum yfirleitt með meira gagnsæi, sem gerir almenningi kleift að fylgjast með því sem pólitískir fulltrúar gera til að koma í veg fyrir spillingu og valdníðslu en einnig auka gæði ákvarðanatöku.

Í borginni hafa Píratar styrkt beint lýðræði og möguleika borgarbúa til að koma að málefnum borgarinnar með verkefnum eins og Betri Reykjavík og Hverfið mitt. Við höfum líka opnað bókhald borgarinnar, aukið rafræna þjónustu og stutt við betra aðgengi að skjölum borgarinnar. Þessi verkefni viljum við vinna áfram og styrkja enn frekar. Við erum auðmjúk gagnvart því að yfirvöld vita ekki alltaf best og því verða borgarbúar að fá að koma að málum.

Píratar vilja meira samráð við borgarbúa í allri ákvarðanatöku, þessu er sérstaklega ábótavant í málefnum jaðarsettra hópa eins og fatlaðs fólks og innflytjenda. Það þarf meira af raunverulegu samráði í stað þess að sækjast eftir einhvers konar samráðsstimpli eftirá, þegar ákvörðun hefur verið tekin og of seint að skipta um stefnu. Þannig mætti bæta ákvarðanatöku og nýta peninga betur. Við krefjumst þess jafnframt að borgin standi við mannréttindaskuldbindingar sínar og gefi engan afslátt af þeim.

Píratar styðja þéttingu byggðar og styrkingu almenningssamgangna því við viljum búa til spennandi menningarborg til framtíðar með meiri nærþjónustu og skemmtilegum borgarkjörnum á fleiri stöðum en í miðborginni. Við viljum að einstaklingar hafi fleiri valkosti um ferðamáta því í dag er erfitt að vera án einkabíls. Fólk sem vill helst vera án bíls neyðist hálfpartinn til að reka bíl vegna gamaldags borgarskipulags. Tökum fleiri skref í átt að nútímalegri borg sem sé samkeppnishæf við stórborgir nágrannalandanna svo að ungt fólkið eigi þess kost að snúa aftur eftir nám erlendis.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Píratar eru ungur flokkur með mikið af ungu fólki innanborðs sem leggur mikla áherslu á að bæta aðstæður, kjör og áhrif ungs fólks. Ein af okkar kjarnahugsjónum er réttur allra til að koma að ákvarðanatöku sem þau varðar og þessu er gríðarlega ábótavant þegar kemur að ungu fólki. Þetta er ástæðan fyrir því að við styðjum að fólk fái kosningarétt við 16 ára aldur. Við styðjum lýðræðisvæðingu alls staðar og því viljum við styrkja ungmennaráð sveitarfélaga og tryggja að þau hafi raunveruleg áhrif og séu ekki bara upp á punt eða til að státa sig af á tyllidögum.

Geðheilbrigðismál tengjast ungu fólki sem hópi sérlega mikið enda eru unglingsárin viðkvæmur tími á lífsleiðinni. Þess vegna er mikilvægt að hafa dyggan og aðgengilegan sálfræðistuðning við nemendur á öllum skólastigum, bæði til forvarnar og aðstoðar.

Ungt fólk á Íslandi flytur að heiman seinna á lífsleiðinni en í nágrannalöndunum, m.a. vegna lélegs kaupmáttar. Þetta grefur undan sjálfstæði þeirra. Nauðsynlegt er að lækka húsnæðis- og leiguverð með meira framboði á húsnæði svo lífsgæði allra batni. Þetta verður að setja í algjöran forgang. Eitt af vandamálum húsnæðismarkaðsins er lág framleiðni íslenskra byggingarverktaka og því þarf að leita leiða til að hækka hana til lengri tíma en mæta einnig þeirri brýnu þörf sem við stöndum frammi fyrir til skamms tíma.

Bæta þarf skólakerfið svo að Ísland sé samkeppnishæft á alþjóðavettvangi hvað varðar menntunarstig og menntunargæði. Þess vegna þarf skýra markmiðasetningu allra skólastiga með einstaklingsmiðuðu námi sem kemur til móts við alla og gefur rými til þess að við séum allskonar. Við þurfum sveigjanleika, sköpunargleði og hugmyndaauðgi. Hættum þessum utanbókarlærdómi og virkjum gagnrýna hugsun. Einnig finnst okkur finnst mjög mikilvægt að snúa við styttingu framhaldsskólanna, en það hefur búið til mikið aukaálag á nemendur og er ekki að stuðla að árangri eða hamingju þeirra.

Önnur framboð - Reykjavík