Frelsi, einföldun á kerfinu og jafnrétti. Viðreisn vill gera borgina okkar þannig að allir vilji búa þar.
Við viljum að þeir sem fara til útlanda í nám vilji koma aftur og búa í Reykjavík. Við getum gert Reykjavík spennandi fyrir alla, en þá verður kerfið að hjálpa en ekki hindra.
Það á ekki að vera erfitt að sækja sér einfalda þjónustu. Það á ekki að vera erfitt að opna veitingastað. Það á ekki að vera erfitt að fá upplýsingar frá borginni. Það á ekki að vera erfitt að gera eitthvað nýtt í skólakerfinu.
Það á að vera auðvelt.
En til þess þurfum við að draga úr miðstýringu og einfalda kerfið.
Framar öllu verður að tryggja réttláta Reykjavík. Við í Viðreisn tökum jafnréttismál mjög alvarlega. Launamismunun á grundvelli kynferðis á ekki að líðast og allir eiga að hafa jöfn tækifæri. Trúboð í skólum, léleg þjónusta fyrir fatlaða og ofbeldi eru líka dæmi um hluti sem eiga að heyra sögunni til. Fólki á að líða vel í borginni, hvort sem það er í námi eða starfi. Viðreisn vill að öll ungmenni í Reykjavík hafi greiðan aðgang að framúrskarandi sálfræðiþjónustu.
Reykjavík verður að hafa framtíðarsýn sem nær lengra en fjögur ár. Við verðum að hætta að þenja út borgina og nýta frekar það pláss sem þegar er til staðar. Þetta gerum við með því að þétta byggðina, byggja á auðum svæðum og með því að gera fólki kleift að ferðast öðruvísi en bara á einkabíl. Strætó þarf að vera betri, hjólastígar þurfa að vera betri, göngustígar þurfa að verða betri. Já og svo við þurfum við vandaða og trausta Borgarlínu.
Ungt fólk er alls konar og þess vegna eru allir málaflokkar með einhverjum hætti mál ungs fólks. Það eru þó ákveðin atriði sem tengjast ungu fólki meira en önnur og þarf að gera betur. Grunn- og framhaldsskólar verða að bjóða upp á umhverfi þar sem hverjum einasta nemanda getur liðið vel. Þess vegna verður að draga úr miðstýringu svo skólar verði frjálsir til að nýta eigið fjármagn til að þjónusta nemendur sína eins og þarf hverju sinni.
Sálfræðiaðstoð á að vera aðgengileg öllum þeim sem vilja nýta sér, hvort sem er í skóla eða annars staðar.
Þá væri líka ákjósanlegt að ungt fólk hefði val um að búa í eigin húsnæði fyrir fertugsaldurinn, en eins og staðan er núna er það því miður óraunhæft fyrir marga. Íbúðir eru mjög dýrar og þó engin ein ástæða sé fyrir því þá er helsti sökudólgurinn sá að það eru einfaldlega ekki nógu margar íbúðir í borginni. Mikið af því sem er verið að byggja eru dýrar lúxusíbúðir sem gagnast ekki mörgu ungu fólki sem leitar yfirleitt frekar að einföldum og ódýrum kostum. Þess vegna verður að byggja mun fleiri ódýrar og einfaldar íbúðir.
Við viljum líka stórbæta strætó og hafa vandaða Borgarlínu, svo fólk hafi fleiri valkosti en aðeins dýran einkabíl.
Umfram allt viljum við að allir geti fundið sér vinnu við hæfi í Reykjavík, ekki síst fólk sem hefur nýlokið námi. Að hjúkrunarfræðingurinn velji ekki að fara til Svíþjóðar og smiðurinn velji ekki að fara til Noregs til að geta haft það sæmilegt.