//
Helstu upplýsingar

VG_h
Listabókstafur: V
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Friður, femínismi og náttúruvernd
Við ætlum að gera borgina mannvæna, friðsæla, réttláta, umhverfisvæna og græna þar sem félagslegt réttlæti og jöfnuður eru leiðarljós í einu og öllu. Það er Vinstri græn borg.

Við höfum afdráttarlausa stefnu í átt til sjálfbærni og umhverfisverndar, jöfnuðar, mannúðar og mennsku – í öllu tilliti og alltaf.

Stærstu viðfangsefni stjórnmálanna eru að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum, uppræta kynbundið ofbeldi og útrýma efnahagslegu, félagslegu sem og öðru misrétti.

Við vitum hvert við stefnum og höldum kúrs. Þannig náum við árangri. Í því felast bæði áskoranir og kröfur en einnig mikil ábyrgð til handa þeim sem halda um stýrið.

Borg fyrir okkur öll og án aðgreiningar
Allir borgarbúar eiga að geta tekið virkan þátt í samfélaginu og fengið þjónustu við hæfi án tillits til kyns, kynhneigðar, uppruna, efnahags eða félagslegrar stöðu. Við fögnum margbreytileika mannlífsins og vinnum að því að útrýma staðalmyndum um minnihlutahópa sem eru skaðlegar fyrir okkur öll. Við ætlum að stórefla þjónustu við innflytjendur í borginni með m.a. góðri túlkaþjónustu og auknu aðgengi að allri borginni.

Frelsi til athafna
Við Vinstri græn líðum ekki kynbundið ofbeldi og áreitni. Það er samfélagsleg meinsemd sem við ætlum að takast á við með markvissum aðgerðum í samstarfi við lögreglu, heilbrigðis- og menntakerfi.

Menningar og listarstarf skipar stóran sess í tilveru manna. Við lítum svo á að það sé ómissandi þáttur alls mannlífs. Menning er menntun og við leggjum áherslu á að Reykjavík haldi áfram að vera skapandi og lífleg menningarborg. Þannig eiga listir og menning að fléttast inn í allt starf hennar, skipulag, þjónustu og daglegt líf. Skólastarf á að byggja á skapandi hugsun og skapandi greinar eiga að hafa aukið vægi og samtvinnast öðrum námsgreinum.

Heilnæmt umhverfi er okkur allt
Við Vinstri græn erum alltaf að hugsa um umhverfisvernd og umhverfið. Við viljum gæta að umhverfissjónarmiðum í allri hönnun, rekstri og viðhaldi opinberra bygginga og tryggja umhverfislega ábyrg og siðræn innkaup og við hvetjum í hvívetna önnur fyrirtæki og stofnanir að gera slíkt hið sama!

Við ætlum að draga úr hvers kyns neyslu og sóun. Það er líka loftslagsmál. Það er borgarlínan líka og við viljum leggja áherslu á vistvænar og öflugar almenningssamgöngur samhliða borgarlínu. Þetta eru brýn umhverfismál ásamt því að gera hjólreiðar að vinsælum og almennum samgöngumáta. Við ætlum að að draga stórlega úr plasti og einnota umbúðum í Reykjavík með margvíslegum aðgerðum og þá helst í gegnum innkaup og stjórnsýslu borgarinnar. Við ætlum að vera í fremsta flokki í endurnýtingu og endurvinnslu og gera betur í að fræða borgarbúa um neyslu, sóun og sorpflokkun og samhliða því ætlum við að  bæta ennfrekar þjónustu við borgarbúa þegar kemur að því að flokka heima.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Við eigum að skapa vettvang þar sem ungt fólk hefur tækifæri á að koma skoðunum sínum og sjónarmiðum á framfæri sem víðast – hvort sem það er í gegnum hefðbundið flokkastarf eða með öðrum leiðum. Það skiptir öllu máli fyrir framvindu samfélagsins að hlustað sé á ungt fólk og að það hafi áhrif á hvert við stefnum til framtíðar.

Almennt séð þá skiptir það einnig máli fyrir ungt fólk að borgin reki öflugt velferðar – og menntakerfi og jafni tækifæri ungs fólks til hvers kyns athafna og vinnu, menntunar og tómstunda. Það skiptir miklu máli að ungt fólk geti valið sér góða búsetu á viðráðanlegu verði  og sé frjálst ferða sinna með litlum tilkostnaði án þess að þurfa að reka dýran einkabíl. Þess vegna leggja Vinstri græn mikla áherslu á að halda áfram stórtækri uppbyggingu stúdentagarða og styrkja hinn almenna leigumarkað þannig að hann sé rekinn án hagnaðarsjónarmiða. Þétting byggðar er liður í því og skapar hún grundvöll fyrir góða nærþjónustu með fjölbreyttri verslun, afþreyingu og menningarlífi.

Í þessu samhengi verðum við að spýta í lófana með öflugum almenningssamgöngum og sveigjanlegu greiðslukerfi fyrir m.a. námsmenn en líka horfa til framtíðar og koma borgarlínuninni í gagnið ásamt því að fjölga hjólastígum og gera öðrum vistvænum ferðamátum hátt undir höfði. Það er löngu kominn tími á róttækar aðgerðir til að  draga úr hljóð- og svifryksmengun með lækkun umferðarhraða sem víðast innan borgarmarka. Hreint andrúmsloft er lýðheilsumál sem varðar ungt fólk jafnt sem okkur öll!

Við Vinstri græn viljum leggja áherslu á raf- og metanvæðingu bíla og véla borgarinnar og stuðla að sömu þróun hjá borgarbúum gegnum umferðarskipulag og bílastæðastefnu þar sem byggt er á mengunarbótareglunni.

Ungt fólk í dag er skynsamt og meðvitað um umhverfi sitt og málefni líðandi stundar. Vinstri græn vilja að skoðanir ungs fólks og áhrif séu metin að verðleikum því við byggjum öll þetta samfélag saman og þar verða raddir ungs fólks að fá að hljóma.

Önnur framboð - Reykjavík