//
Helstu upplýsingar

22424175_1961410934116224_8863467296495623204_o-1
Listabókstafur: B
Staða: Í minnihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Nokkur af helstu áherslumálum framboðs Framsóknar í Reykjavík eru:

Menntamál:
Við leggjum höfuð áherslu á betra skólakerfi. Núverandi stefna er ekki að skila góðum námsárangri og yfirvofandi kennaraskortur er vandamál sem við verðum að láta okkur öll varða.

Lykillinn að betri menntun barna í grunnskólum borgarinnar er kennarinn. Í þeim löndum sem koma vel út í alþjóðlegum samanburði er varðar menntun barna er starf kennarans eftirsótt en þannig er það hins vegar ekki á Íslandi, þessu þarf að breyta.

Kennarar eru starfsmenn Reykjavíkurborgar og við verðum að huga betur að þeim.
Við ætlum að hækka laun kennara verulega og bæta aðbúnað þeirra. Jafnframt verður það forgangsatriði að draga úr valdboðum „að ofan“ sem eru til þess fallin að gera lítið úr sérfræðikunnáttu kennara.

Kennarar eru sérfræðingar í kennslufræðum, við treystum þeim og viljum sýna það í verki.

Samgöngumál:
Fleiri farþega í Strætó og aukin hlutdeild vistvænna ferðamáta er augsýnilega hagkvæmasta úrræðið til að létta á vaxandi þrýstingi á gatnakerfi borgarinnar. Vandinn er bara að koma einmitt því í kring, á þann hátt að hafi hámarks áhrif með sem minnstum tilkostnaði.

Við teljum mikilvægt að farið sé strax í róttækar aðgerðir, með það að markmiði að fækka ferðum sem farnar eru á einkabílum.

Frítt í Strætó:
Framboð Framsóknar í Reykjavík hefur talað fyrir því að gerð verði árs tilraun með að hafa frítt í Strætó. Það er, eðli málsins samkvæmt, ekki algengt að fólk eigi bæði bíl og Strætókort. Þá er afar stór hópur fólks sem á einkabíl og hefur ekki í hyggju að losa sig við hann. Í þessum hóp er sóknartækifærið. Meðal markmiða tilraunarinnar „Frítt í Strætó“ er að búa til jákvæðan hvata fyrir þennan hóp til þess að nota Strætó í hluta af þeim ferðum sem farnar eru.

Að bjóða fríar „tilraunaferðir“ gæti verið raunhæft fyrsta skref í átt að breyttri ferðahegðun

Samgöngustyrkur til háskólanema:
Að borga háskólanemum fyrir það að nota vistvænan ferðamáta, með það að leiðarljósi að fækka bifreiðum á götunum, gæti verið hagkvæm leið til að létta á gatnakerfinu.
Gríðarlegur fjöldi bíla umlykja háskólana við Vatnsmýrina á hverjum degi, en þarna er á ferðinni hópur fólks, sem flestir eru einir í bíl á leið um verstu punkta borgarinnar umferðalega séð. Hver og einn styrkþegi myndi semja sig frá því að nýta einkabílinn til og frá skóla, okkur öllum til hagsbóta.

Aukinn jöfnuður:
Gæðum samfélagsins er sannarlega misskipt og ójöfnuður er risavaxið vandamál í borginni. Aukinn jöfnuður er málefni sem er Framsókn í Reykjavík hugleikið.

Við viljum að borgin nýti öll tækifæri sem henni býðst til þess að auka jöfnuð. Með það að markmiði höfum við t.d. áhuga á að endurskoða hvernig frístundastyrkjum er úthlutað til barna í Reykjavík.

Frístundakortið er styrktarkerfi í frístundastarfi fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Styrkurinn er 50 þúsund krónur á ári fyrir hvert barn.
Tilgangur og markmið frístundakortsins er að auka jöfnuð. Þessu markmiði er hins vegar ekki náð með því að veita öllum börnum sama styrkinn, sömu upphæð, óháð efnahag foreldra þeirra. Með hliðsjón af fyrrnefndum ójöfnuði íslensks samfélags ætti að vera ljóst að foreldrar hafa mis mikla þörf fyrir styrkinn.

Betri nýting á þeim fjármunum sem Reykjavíkurborg leggur til vegna frístudastyrks barna næðist ef frístudakortið yrði tekjutengt. Þau börn sem verst standa í samfélaginu þyrftu að fá hærri styrk en þann sem nú er í boði fyrir þau. Þetta mætti framkvæma með einfaldri tilfærslu fjármuna á kostnað þeirra sem minni, eða enga þörf hafa fyrir styrkinn. Hér er jöfnunartækifæri og við viljum nýta það.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Öll þau mál sem nefnd eru hér að ofan eru málefni ungs fólks, enda koma öll mál ungu fólki við. Þó er augljóslega einn málaflokkur sem ekki hefur verið nefndur sem hvílir sérstaklega þungt á ungu fólki í borginni.

Húsnæðismál:
Það er ljóst að íbúðaruppbygging hefur gengið of hægt. Ungt fólk flytur umvörpum yfir í nágrannasveitarfélög vegna vöntunar á hentugu húsnæði, þetta er ekki góð þróun.

Okkur finnst þétting byggðar af hinu góða, en þétting ein og sér getur ekki gengið nógu hratt til þess að mæta uppsafnaðri þörf. Samhliða þéttingu viljum við hefja uppbyggingu nýrra hverfa og leggja aukna áherslu á að byggðar séu minni og ódýrari íbúðir en þær sem eru að koma nýjar á markað um þessar mundir.

Önnur framboð - Reykjavík